21.7.2008 | 15:47
Fyrstu dagarnir í Danmörku
Loksins erum við komin með internetaðgang. Þetta er færsla sem ég skrifaði 10. júlí en gat ekki sett inn fyrr en núna.
Hæhæ öll sömul
Jæja, loksins gefst mér færi á að skrifa nokkur orð. Reyndar mun ég ekki ná að setja þetta inn á netið fyrr en einhvertíman en ég ætla að skrifa fyrir því.
Núna er fimmtudagskvöld og klukkan er að verða átta. Við sitjum úti á verönd að drekka hvítvín og bjór og borðum osta og jarðaber í kvöldmat. Og súkklaðihnetusmjör með jarðaberjunum. Strax er farið að verða vart við vandamál hjá Friðrik varðandi drykkjuna og við erum farin að ræða það að hætta að kaupa bjór eða fara með hann í verslanir. Nei, bara jóke. Það er bara rosalega gaman hjá okkur og við erum öll alsæl og ekkert nema gott hægt að segja um félagsskapinn. Við höfum ekki farið erlendis áður með Friðrik en þetta er bara gaman og hann er fínn ferðafélagi.
Ég er reyndar að reyna að losna við þau í gönguferð svo ég fái smá frí og tíma til að skrifa, truflunarlaust en.... ekki tekist enn. En ég ætla að segja ykkur frá því sem gerst hefur síðan ég skrifaði síðast.
Við vorum að bíða eftir Laugu og Ödda til að keyra okkur út á flugvöll og við vorum komin út á flugvöll rétt fyrir kl. 10 um kvöldið (sko á mánudagskvöldið). Þá var auðvitað allt lokað og við fengum okkur bara bjór (krakkarnir bara gosJ) og settumst niður og slökkuðum á. Svo fórum við aðeins í búðirnar en það eina sem við keyptum var nú bara Eldur-Ís vodka og Reykjavodka til að eiga hér úti. Flugið var alveg á réttum tíma og við vorum þrjá klukkutíma á leiðinni út. Flugið hefði nú mátt vera skemmtilegra. Aðalega vegna þess að krakkarnir gátu engan vegin sofnað og þar með ekki við heldur. Við lentum svo í Köpen kl. 6 að dönskum tíma. Fengum okkur smávegis morgunmat og fórum svo í lestina tuttugu mínútur í átta. Lestarferðin var nú töluvert þægilegri en flugferðin, aðalega vegna þess að sætin voru betri og plássið meira. Þannig að flest okkar gátum sofnað eitthvað. Reyndar horfðum við Pétur Geir á myndina Shooter í lestinni. En ég náði að loka augunum smá tíma. Reyndar varð ég frekar pirruð í þessari lestarferð. Það er nefnilega hægt að greiða fyrir sérstök sæti en það var okkur ekki sagt fyrr en við vorum búin að borga sætin. Svo við vorum ekki með föst sæti og endilega þurftu að koma einhverjir danir sem bókuðu sætin sem við vorum í og ekki bara einu sinni heldur tvisvar. Og þeir sem þekkja mig vita að ég er nú ekki alltaf umburðarlyndasta manneskja og þar sem það var ég og krakkarnir sem lendum í þessu en ekki Arnþór og Friðrik þá varð mín létt brjáluð út í Arnþór, auðvitað J. Og eftir að þetta gerðist í fyrsta skiptið rauk ég á hann alveg brjáluð. Greyið Friðrik hélt að ég mundi drepa Arnþór með augnaráðinu einu saman. En eftir að þetta gerðist aftur þorði Arnþór ekki einu sinni að horfa í áttina til mín. Ég get verið svodan grippa.
En við lifðum þetta af og fórum úr lestinni í Horsens þar sem tóku á móti okkur yndisleg hjón. Þau heita Hallur og Steinunn, Hallur var með Arnþóri í meistaraskólanum, þannig þekkjast þeir. Reyndar hef ég skrifast nokkrum sinnum á við Steinunni vegna skólanna hér í Danmörku, þar sem hún er kennari og vann sem slík seinasta vetur hér í Horsens. Þetta eru yndisleg hjón og þegar ég hitti þau fannst mér að ég hefði þekkt þau lengi. Þau eiga eina dóttir, Áróru sem er ferlega sæt, og von á öðru eftir nokkrar vikur.
Þau keyrðu okkur upp í hús hér í Horsens. Það er húsið sem við erum í þar til við fáum okkar afhend. Þau lánuðu okkur líka bíl svo við erum ekki bíllaus. Alveg yndislegt fólk. Svo við vorum komin upp í hús upp úr klukkan ellefu á þriðjudags morgni og öll verulega þreytt. Töskunum var hend inn og farið svo út að kaupa eitthvað létt til að borða og eftir það lögðum við okkur. Við ákváðum að sofa ekki lengi heldur fórum af stað og kíktum í heimsókn til Halls og Steinunnar þar sem var tekið á móti okkur með kaffi og meðlæti.
Um kvöldið elduðum við kjúklingabita og sátum svo yfir sjónvarpinu þar til við sofnuðum um miðnætti. (Eftir að hafa drukkið pínulítið J af bjór). Reyndar fórum við Friðrik og stelpurnar í göngutúr fyrir mat um hverfið. Við ætluðum út í búð en sú búð var lokuð kl. 7 svo við skoðuðum okkur aðeins um í staðinn. Í miðri gönguferðinni fór að rigna og auðvitað vorum við ekki með regnhlífar og vorum við orðin töluvert blaut þegar við komum loksins heim. En þar sem það var um 20 stiga hiti úti fundum við nú ekki mikið fyrir þessu.
Svo var kominn miðvikudagur. Við heldum reyndar öll að það væri fimmtudagur og vorum frekar þreytt og vitlaus. En við vöknuðum fyrir kl. 12 og fórum á endanum út og niðrí miðbæ Horsens og löppuðum þar nokkurskonar Laugaveg. Það var bara fínt og svo fórum við að versla í matinn, heim að elda og settumst svo við sjónvarpið með bjór og bara hengum. Við vorum ennþá vel þreytt eftir ferðina og ekki upp til stórræðanna. En eins og kvöldið áður fórum svo að sofa seint og um síðir en samt ekki fyrr en eftir góðan göngutúr. Núna var það Friðrik sem varð eftir heima en ég, Arnþór, Pétur Geir og stelpurnar fórum. Það var virkilega gaman að skoða sig svona um og húsin hér í kring eru hvert öðru fallegra.
Svo kom dagurinn í dag, fimmtudagur. Við vöknuðum reyndar ekki fyrr en klukkan hálf tólf þegar Arnþór vakti okkur. Auðvitað vaknar hann alltaf fyrstur. Svo rétt eftir að við vorum öll vöknuð var dyrabjöllunni hringt. Þá var það hann Valdimar og það var síminn til okkar. Valdimar er nokkurs konar gæslumaður húsins. Hann býr ásamt konu sinni í hluta þess en hinn hlutinn er sá sem við erum í er til leigu. Ok. Sú sem var í símanum var Sigrún Thormar. Og hún hafði auðvitað fréttir. Þeir voru auðvitað ekki alveg tilbúnir með húsið til afhendingar á morgun. ( og hann sonur minn stendur núna fyrir aftan mig og hvartar undan því að ég skuli ekki blogga allmennilega eins og hann segir, allmennilegt blogg er þegar maður skrifar: ég var að borða jarðaber með hangikjöti í borgunmat og minnir að ég hafi fengið mér hálft mjólkurglas með. Sem sé mjög nákvæmt staðreyndarblog. En sem betur fer er hann nú farin í hina reglubundnu kvöldgöngu með liðinu). (Ég heyri í uglu). Ok, en snúum nú okkur aftur að því sem Sigrún sagði Arnþóri. Húsið yrði ekki tilbúið til innflutnings fyrr en á laugardag. Við mundum fá lyklana á föstudag en gætum ekki flutt fyrr en á laugardag. En þar sem gámar eru ekki afhendir um helgar verðum við hér þar til á mánudag. J Sem mér finnst bara allt í lagi. Og auðvitað borgar leigusalinn það. Svo hverju get ég kvartað yfir. Svo við sögðum bar allt í lagi og ekkert vesen. En við munum hitta Sigrúnu og leigusalan á morgun kl. 11 til að fá afhenda lyklana af húsinu.
Við ákváðum því, sérstaklega þar sem við vorum töluvert hressari en undanfarna daga að skella okkur uppeftir til Hörning og skoða nýja heimilið okkar. Við vorum búin að koma liðinu út kl 1:30 og byrjuðum í verslun og Arnþór keypti símkort og vorum lögð af stað upp í Hörning kl.tvö. Það gekk bara rosalega vel að komast þanngað. Sem var auðvitað mest að þakka staðsetningartækinu hans Halls sem er í bílnum en, so what? Ég verð bara að segja það að við vorum öll mjög ánægð með það sem við sáum. Bæði hvað varðar bæinn og húsið okkar. Fallegt umhverfi, stutt í skólann og bara allt leit flott út. Krökkunum leist mjög vel á þetta og þau eru bara svo róleg yfir þessu öllu saman. Ég verð að segja að ég get ekki verið annað en stolt af börnunum mínum. Þau taka þessu öllu svo vel og eru svo yfirveguð og bara ánægð með þetta allt saman að...ja, hvað get ég sagt annað en að þau eru yndisleg og ekki væri hægt að hugsa sér betri börn.
Eftir að hafa skoðað húsið okkar og nágrenni keyrðum við til Árhúsa og fórum á McDonalds. Sem er sko ekki uppáhalds staðurinn minn en Pétur Geir er búinn að vera að bíða eftir að komast þanngað. Það var nú samt bara fínt og eftir góða máltíð þar hringdum við til Íslands heim til Stellu ömmu. Það var bara fínt hljóðið í henni og hún fær íbúðina afhenda á morgun. Krakkarnir hennar munu flytja hana um helgina. Krakkarnir töluðu auðvitað við ömmu og allt var í þessu fína. Eftir það héltum við heim en þar sem klukkan var bara fjögur urðum við að gera ráð fyrir einhverju í kvöldmat og fórum í verslun og keyptum spaghetti til að hafa um kvöldið. En auðvitað var enginn neitt sérstaklega svangur svo við sátum hér úti og fengum okkur bara jarðaber og osta eins og ég sagði áður.
Núna er klukka tuttugu mínútur í níu. Ég sit hér úti á yfirbyggðri verönd í pilsi og hlýrabol og skrifa þetta. Arnþór, Friðrik og krakkarnir fóru í göngutúr fyrir um tuttugu mínútum síðan. Það var komið að mér að vera heima. Ég sit hér með hvítvínsflöskuna, næstum tóma, og fuglasöngurinn bergmálar. Þetta er yndislegt.
Á morgun munum við fara og fá lyklana að húsinu og hvað við gerum eftir það vitum við ekki. Við vorum að hugsa um að fara til Árhúsa einhverntíman um helgina og okkur datt það jafnvel í hug að skreppa niður til Þýskalands. Það er ekki nema 40 mínútur héðan að landamærunum. Gos og bjór eru miklu ódýrara þar. En við ætlum bara að láta það ráðast hvað við gerum um helgina. En að þurfa ekki að standa í flutningum strax og vera bara hér í þessu leiguhúsnæði, er bara yndislegt. Þetta er okkar sumarfrí. Á mánudag byrjar svo vinnan en þá kemur gámurinn og þá verður nóg að gera í nokkuð marga daga. Lauga mun koma á mánudag til að hjálpa til og það verður vel þegið. Hún mun stoppa fram á fimmtudag. Jæja, ég heyri að þau eru komin til baka úr gönguferðinni. Ég ætla því að hætta í bili en mun skrifa meira seinna. Við biðjum að heilsa öllum heima.
Stella
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Um bloggið
Arnþór, Stella og Börn í Danmörku
Bloggvinir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Eg ogog við her i Ameriku óskum ykkur öllum til hamingu með mya ferðalagið ykkar verið varklár í dryikjuni hahahha
LOVE Guðrun
Guðrun Thorisson (IP-tala skráð) 21.7.2008 kl. 18:19
bæbæbæ
frábært að allt skuli ganga svona vel. og þið skulið kominn í nýju íbúðina.
Kv Dísa Sysir og óskar
Dísa (IP-tala skráð) 21.7.2008 kl. 18:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.